Svona gerum við.

 

Miðlun ehf annast rekstur viðskiptaferla fyrir fyrirtæki og félagasamtök. Við rekum Halló sem vaktar og svarar fyrirspurnum sem berast í síma, tölvupósti, netspjalli og á samfélagsmiðlum. Við rekum einnig Takk sem sækir færi, aflar viðskiptavina, ræktar viðskiptasambönd og sér um rekstur á viðskiptasamfélögum fyrir fyrirtæki og félagasamtök. Dótturfyrirtæki Miðlunar er Kaupum til góðs ehf sem selur rekstrar- og starfsmannavörur til fyrirtækja í samstarfi við góðgerðasamtök.

Stefna Miðlunar er að stuðla að framgangi viðskiptavina sinna með því að veita góða faglega þjónustu. Félagið leggur metnað í að vera góður vinnustaður og tryggja vöxt og viðvarandi arðsemi. Við erum meðvituð um ábyrgð okkar gagnvart viðskiptavinum, starfsmönnum og samfélaginu öllu. Þess vegna leggjum við fram stefnu í eftirfarandi málaflokkum:

 

Samskipti

Samskipti við viðskiptavini, samstarfsfólk og aðra viðmælendur skulu einkennast af kurteis og virðingu. Við erum opin í samskiptum og leitumst við að ræða málin á hreinskilin hátt. Starfsfólk viðurkennir mistök og leiðréttir eftir bestu getu. Það iðkar fullt gegnsæi gagnvart mistökum sínum og reynir ekki að breiða yfir þau. Starfsfólk tekur allar kvartanir frá viðskiptavinum eða öðrum hlutaðeigandi alvarlega og bregst við á opinn og ábyrgan hátt.

Við lítum á fagmennsku og traust sem grunngildi fyrirtækisins. Hvernig við högum okkur og hvernig við eigum í samskiptum við hvert annað þarf að vera í samræmi við þau gildi. Þetta á einnig við um samskipti í nafni fyrirtækisins út á við. Við sýnum samstarfsfólki og viðskiptavinum ávallt ýtrasta trúnað.

Starfsfólk veitir ekki af ásetningi villandi eða rangar upplýsingar. Það aflar aldrei stuðnings eða viðskipta með óheiðarlegum hætti eða með því að beita ýkjum eða óeðlilegum þrýstingi. Í starfi sínu beitir starfsfólk ekki aðferðum sem kunna að skaða orðspor viðskiptavina eða gera lítið úr samkeppnisaðilum.

Við erum öll að vinna að sama markmiði og reynum að hjálpa hvort öðru og koma til aðstoðar í þeim verkefnum sem þess krefjast. Við erum opin og jakvæð gagnvart breytingum á umhverfi, hugmyndum og verkferlum og fögnum öllum ábendingum um slíkt.

Miðlun þjónustar ekki aðila sem eru í starfsemi í beinni andstöðu við gott siðferði eða sem beita aðferðum sem eru óeðlilegar.

 

Jafnrétti

Allir innan fyrirtækisins hafa jöfn tækifæri, starfsfólk er ráðið byggt á faglegum hæfileikum viðkomandi. Mismunun byggð á trú, litarhafti, kyni, kynhneigð og aldri er ekki liðin. Stjórnendur bera ábyrgð á því að allt starfsfólk fái notið sín og að sú auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum þess efli starf félagsins.

Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu þau jafnframt njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla.

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og skyldur gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu, eftir því sem við verður komið og þörf er á. Gera skal ráð fyrir að karlar jafnt sem konur njóti sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum.

Við líðum ekki kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi, einelti né hvers kyns ofbeldi. Við hvetjum starfsfólk til þess að tilkynna slík tilvik ef upp koma. Við skiljum að upplifun af samskiptum er mismunandi og gerum ekki lítið úr viðbrögðum eða tilfinningum annarra. Miðlun skuldbindur sig til þess að bregðast hratt og örugglega við tilkynningum um áreiti, einelti og ofbeldi að hálfu starfsfólks.

 

Vinnuumhverfi og umhverfismál

Við leggjum okkur öll fram við að búa til vinnustað sem er laus við ógnanir, áreiti, ofbeldi og einelti. Neysla á ólöglegum fíkniefnum er bönnuð, neysla á áfengi á vinnutíma er bönnuð, reykingar og rafsígarettur eru ekki leyfðar innandyra.

Við erum í opnu vinnurými og þurfum því að taka tillit til þeirra sem sitja í kringum okkur. Notum almenna skynsemi og reynum að setja okkur í spor þeirra sem deila með okkur vinnurými.

Við reynum að hafa jákvæð áhrif á umhverfismál með því að takmarka pappírsnotkun í fyrirtækinu, nota ekki einnota vörur, flokka sorp og stunda umhverfisvæn innkaup á rekstrarvörum og við endurnýjum búnaðar. Við munum leggja okkur fram um að auka umhverfisvitunda starsmanna.

 

Persónuvernd

Við virðum rétt fólks til einkalífs og tryggir að farið sé með allar persónuupplýsingar í samræmi við ákvæði gildandi laga og reglugerða um persónuvernd og úrvinnslu persónuupplýsinga. Við öflum og vinnum með persónuupplýsingar í umboði viðskiptavina okkar. Við geymum ekki eða vinnum með persónuupplýsingar nema óvéfengjanlegt umboð viðskiptavinar liggi fyrir og lögmæt ástæða sé fyrir öflun og vinnslu slíkra upplýsinga.

Við ábyrgjumst að nýta ekki upplýsingarnar á óábyrgan, óöruggan eða ólöglegan hátt. Sem ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinga mun Miðlun tryggja öryggi slíkra upplýsinga með viðeigandi ráðstöfunum.

Við munum ekki afhenda, selja eða leigja persónuupplýsingar til þriðja aðila nema okkur sé það skylt samkvæmt lögum. Við áskiljum okkur þó rétt til að deila persónuupplýsingum með þriðja aðila sem koma að tæknilegu viðhaldi eða greiðsluþjónustu að því marki sem nauðsynlegt er. Við tryggjum eftir fremsta megni að slíkir aðilar viðhafi fullan trúnað og að öryggi gagna sé tryggt.

Feli verkefni í sér umsýslu með viðkvæmar persónuupplýsingar eða upplýsingar um einstaklinga yngri en 18 ára munum við tryggja að viðskiptavinir félagsins hafi tilskilin leyfi til vinnslu slíkra upplýsinga.